Íslenski boltinn

Kristín Ýr: Mjög gott að fá þrjú stig í svona leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristín Ýr Bjarnadóttir skoraði seinna mark Vals með þrumuskalla þegar Íslandsmeistararnir unnu 2-1 sigur á Stjörnunni í toppslag Pepsi-deildar kvenna á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda í kvöld.

„Það er alltaf mikilvægt að fá þrjú stig út úr öllum leikjum ef maður ætlar að vinna þetta mót. Við verðum að fá eins mörg stig og við getum," sagði Kristín Ýr eftir leikinn.

„Við vorum ekki búnar að fá þrjú stig út úr báðum leikjunum okkar fyrir þennan leik þannig að það er kannski ekki sannfærandi. Mér finnst að við séum búnar að vera ágætar þótt að við ætlum alltaf að vinna alla leiki og séum fúlar þegar við fáum ekki þrjú stig. Það eru samt engin vandræði á Hlíðarenda," sagði Kristín Ýr brosandi.

„Þetta var besti leikurinn okkar og við vorum þéttari núna. Við börðumst og gáfum rúmlega hundrað prósent í þennan leik. Ég er ánægðust með þennan leik því við héldum dampi allan tímann en við höfum dottið svolítið niður í hinum leikjunum," sagði Kristín Ýr.

„Þetta er tvö frábær lið og það er mjög gott að fá þrjú stig í svona leik. Við erum komnar á toppinn aftur og við viljum enda þar. Það er ekkert leyndarmál að það er stefnan," sagði Kristín Ýr sem hrósaði hinni 15 ára Hildi Antonsdóttur fyrir leikinn en Hildur var mjög góð á miðju Valsliðsins.

„Það er svo skemmtilegt að hún er uppalin. Ég er búin að vera með í að þjálfa hana og hún er ekkert smá góð. Hún er ekki einu sinni efnileg lengur því hún er orðin ógeðslega góð," sagði Kristín Ýr en það má sjá allt viðtalið með því að smella hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×