Erlent

Sakaður um 4.400 morð til viðbótar

John Demjanjuk er 91 árs og býr á hjúkrunarheimili í Þýskalandi á meðan hann bíður þess að áfrýjunardómstóll taki mál hans fyrir.
John Demjanjuk er 91 árs og býr á hjúkrunarheimili í Þýskalandi á meðan hann bíður þess að áfrýjunardómstóll taki mál hans fyrir. Mynd/AP
Saksóknari í Þýskalandi rannsakar nú hvort dæmdur fangavörður nasista í síðari heimsstyrjöldinni hafi átt þátt í dauða 4.400 manna í Flossenbuerg-fangabúðunum í Þýskalandi.

John Demjanjuk var í maí sakfelldur fyrir hlutdeild í morðum á 28.060 mönnum í Sobibor, útrýmingarbúðum nasista í Póllandi. Demjanjuk, sem er 91 árs gamall, var fangavörður í Sobibor og Flossenbuerg. Hann hefur áfrýjað fimm ára fangelsisdómi og gengur laus þar til dómur fellur á æðra dómsstigi.

Dómurinn yfir Demjanjuk markaði tímamót því þar var fangavörður sakfelldur fyrir óhæfuverk sem áttu sér stað í útrýmingarbúðum án þess að sannað þætti að hann hefði sjálfur beinlínis myrt fólk. Fangabúðirnar í Flossenbuerg voru ekki útrýmingarbúðir, en þar létust engu að síður þúsundir manna.

Demjanjuk fæddist í Úkraínu og þjónaði í sovéska hernum. Eftir að hann var handsamaður af þýska hernum árið 1942 gekk hann til liðs við nasista og gerðist fangavörður. - bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×