Innlent

Formaður Neytendasamtakanna gagnrýnir 25% hækkun

Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna.
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna. Mynd/Hilmar
Jóhannes Gunnarsson, formaður Neytendasamtakanna, segist taka fregnum af áætlaðri 25% hækkun á verðskrá Landssamtaka sauðfjárbænda afar þunglega. Þetta sé hið undarlegasta mál sem segi til um hverskonar kerfi er í íslenskum landbúnaði.

"Að sögn Landssambands sauðfjárbænda þá eru bændur ekki að fá neitt meira í sinn hlut þrátt fyrir þessar gríðarlegu hækkanir á 40% framleiðslu þeirra - hvað er í gangi?"

Í frétt um hækkunina sem birtist á Vísi í morgun er haft eftir Sindra Sigurgeirssyni, formanni Landssamtaka sauðfjárbænda, að meðalverð fyrir útflutt kjöt, innmat og gærur hafi hækkað langt umfram áhrif gengisfalls krónunnar síðustu þrjú árin.

"Ef færi á versta veg og þessi 25% hækkun myndi skila sér út á markaðinn hér, þá er ég nú hræddur um það að þeir séu aldeilis að bíta sig í skottið." segir Jóhannes og minnir á það að heimilin á Íslandi berjist í bökkum.

"Ég hlýt að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það, ef afurðarstöðvarnar eru að fara svona illa með bændur, að það skuli bitna á íslenskum neytendum" segir Jóhannes. "Krafa mín er einföld: talið við afurðarstöðvarnar, verið ekki að svína á íslenskum neytendum, sem þó hafa sýnt sauðfjárbændum mikinn skilning."


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×