Lífið

Kjartan nýtur sín við kornrækt og ferðaþjónustu

Kjartan Gunnarsson hefur stofnað ferðaþjónustufyrirtækið Bæjarbúið en hann hefur um árabil rekið Franska kaffihúsið á Rauðasandi.
fréttablaðið/Stefán
Kjartan Gunnarsson hefur stofnað ferðaþjónustufyrirtækið Bæjarbúið en hann hefur um árabil rekið Franska kaffihúsið á Rauðasandi. fréttablaðið/Stefán

Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og formaður bankaráðs Landsbankans, hefur sinnt kornrækt og kaffihúsarekstri fyrir vestan undanfarin ár. Hann rær nú á ný mið í ferðaþjónustu.

„Það er nú bara svoleiðis, þetta getur orðið á ýmsum stöðum,“ segir Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins og formaður bankaráðs Landsbankans. Hann hefur stofnað fyrirtækið Bæjarbúið sem er skráð á heimili þeirra Sigríðar Snævarr, eiginkonu hans, og er tilgangur þess búrekstur og ferðaþjónusta. Kjartan vildi lítið tjá sig um fyrirtækið í samtali við Fréttablaðið og var mjög leyndardómsfullur þegar hann var spurður nánar út í það. Hann hefur um árabil rekið Franska kaffihúsið á Rauðasandi og staðið fyrir mikilli uppbyggingu á því svæði, gerði meðal annars upp gamla ungmennafélagshúsið sem áður hýsti ungmennafélagið Von.

Kjartan vildi hvorki játa né neita að hann væri að færa út kvíarnar. Hann viðurkennir hins vegar að ferðaþjónustan og sveitalífið hafi lengi blundað í honum og að hann kunni vel við sig út á landi. „Það er ekki æsinginum fyrir að fara þarna, það skilja allir þar að lífið gengur ekki út á æsing.“ Kjartan hefur einnig sinnt kornrækt í samvinnu við bændurna á svæðinu, ræktað bæði hafra og bygg sem notað er í bakstur og handa dýrum. „Kornrækt hefur aukist mjög, tvöfaldast og sums staðar þrefaldast á síðastliðnum árum. Menn hafa smám saman áttað sig á því að þetta væri hægt enda hefur veðrið verið svo gott.“

Landslagið á Rauðasandi þykir einstakt, staðurinn afmarkast af Stálfjalli í austri og Látrabjargi í vestri. Rauðisandur hefur notið sívaxandi vinsælda meðal innlendra og erlendra ferðamanna en sjálfur vill Kjartan ekki gefa upp hversu mikið hann dveljist þar. „Maður er þarna eftir þörfum, efnum og ástæðum.“

freyrgigja@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.