Erlent

Setja Páfagarði stól fyrir dyrnar

Enda Kenny Forsætisráðherra Írlands er kominn til Brussel að ræða fjárhagsvandræði evruríkjanna. fréttablaðið/AP
Enda Kenny Forsætisráðherra Írlands er kominn til Brussel að ræða fjárhagsvandræði evruríkjanna. fréttablaðið/AP
Írar hafa almennt fagnað harðorðri ræðu Enda Kenny forsætisráðherra í garð Páfagarðs, þar sem hann fordæmdi dræm viðbrögð Páfagarðs við uppljóstrunum um kynferðislegt ofbeldi innan kirkjunnar undanfarin sautján ár.

Hann sagði Páfagarð hafa gert lítið úr barnanauðgunum og barnapyntingum og skýla sér á bak við leyndarhjúp trúarvaldsins.

Írar taka almennt undir þessa gagnrýni og krefjast þess að Páfagarður geri loks hreint fyrir sínum dyrum og takist á við þennan óhugnað. Fréttaskýrendur og sagnfræðingar segja þetta jafnast á við byltingu á Írlandi, þar sem almenningur hefur jafnan haft mjög sterkar taugar til kaþólsku kirkjunnar.

Áratugum saman hafa írskir stjórnmálamenn leyft kaþólsku kirkjunni að hafa síðasta orðið um lagasetningar. Gagnrýni á kirkjuna var nánast ávísun á tap í kosningum. Nú taka meira að segja kaþólskir prestar almennt undir gagnrýni forsætisráðherrans.

„Yfirgnæfandi meirihluti venjulegra presta er ótrúlega pirraður á því að Páfagarður viðurkenni aldrei mistök, vilji engar viðræður og láti þennan skugga hvíla yfir okkur öllum. Það er ekki sanngjarnt,“ segir Tony Flannery, leiðtogi samtaka kaþólskra presta á Írlandi.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×