Innlent

Steingrímur J. Sigfússon tekur lokasprett Friðarhlaupsins í dag

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hljóp með Friðarkyndilinn fyrr í mánuðinum.
Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Akureyrar, hljóp með Friðarkyndilinn fyrr í mánuðinum. Mynd/Apa Guha Vesely
Fjármálaráðherrann Steingrímur J. Sigfússon og kenýska hlaupadrottningin Tegla Loroupe munu leiða lokasprettinn í Friðarhlaupinu í dag. Friðarhlaupið er aðili að alþjóðlegu ári ungmenna sem Sameinuðu þjóðirnar og UNESCO standa að.

Lokasprettur hlaupsins leggur af stað frá Valsvellinum í dag kl.11.30 og munu Steingrímur og Tegla hlaupa í fylgd félagsmanna Vals og friðarhlauparanna, sem eru tuttugu talsins og koma frá þrettán þjóðlöndum.

Hlaupið verður eftir Hringbrautinni og svo yfir göngubrúna hjá Njarðargötu.  Því næst eftir Fríkirkjuvegi og Lækjargötu að Iðnó. Eva Einarsdóttir borgarfulltrúi og formaður ÍTR tekur á móti hlaupurum klukkan 12:00 á milli Iðnó og Ráðhússins og verður lokaathöfn þar ef veður leyfir, en annars verður hún færð inn í Tjarnarsalinn.

Við lokaathöfnina mun Friðarhlaupið þakka Teglu og Steingrími fyrir framlag þeirra til friðarmála í heiminum með því að veita þeim verðlaunin "Kyndilberi friðar".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×