Innlent

Verða að greiða fasteignalánið til baka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði í dag Arion banka af kröfu pars sem vildi fá það viðurkennt að það þyrfti ekki að greiða fasteignalán sem parið tók í júní árið 2007. Lánið var gengistryggt í japanskri mynt. Upphafleg fjárhæð lánsins var 23 milljónir króna. Til vara krafðist parið þess að þurfa einungis að greiða 23 milljónir króna. Parið krafðist þess svo að ef önnur ofangreindr krafna yrði samþykkt myndu þau fá það sem þau höfðu ofgreitt til baka.

Eftir að parið tók lánið hrundi gengi krónunnar og var uppgreiðsluendurvirði lánsins komið í tæpar 65 milljónir króna þann 1. mars síðastliðinn. Vegna laga sem sett voru á síðasta ári þar sem kveðið var á um að fjármálafyrirtæki skuli endurreikna húsnæðislán til neytenda hafi slíkt lán verið greitt út í íslenskum krónum en endurgreiðsla miðast við gengi erlendra gjaldmiðla hafði Arion banki endurreiknað lánið og stendur höfuðstóll lánsins því í tæpum 33 milljónum.

Þar sem Héraðsdómur samþykkti hvoruga kröfu parsins kom ekki til þess að bankinn þyrfti að greiða þeim neitt til baka.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×