Innlent

Ormalyf í samræmi við aðstæður

Lífrænn búskapur Velferð búfjárins er alltaf í fyrirrúmi.
Lífrænn búskapur Velferð búfjárins er alltaf í fyrirrúmi.
„Almennt séð tel ég að notkun hefðbundinna lyfja eigi að ráðast af þörf og aðstæðum hverju sinni.“

Þetta segir Gunnar Á. Gunnarsson, framkvæmdastjóri Vottunarstofunnar TÚNS ehf., sem er faggild eftirlits- og vottunarstofa fyrir lífræna og sjálfbæra framleiðslu.

Í greinargerð með frumvarpi til laga um dýravelferð segir að með tilkomu „lífræns“ búskapar hafi borið við að dýr séu ekki meðhöndluð með lyfjum gegn tilteknum sjúkdómum eða „séu ekki ormahreinsuð.“ Rétt þyki að lögbinda lágmarksmeðhöndlun á dýrum.

„Notkun tilbúinna gagnverkandi efna og sýklalyfja til fyrirbyggjandi meðferðar er bönnuð, nema þegar opinberar kröfur um bólusetningar krefjast þess eða viðbrögð við staðbundnum sjúkdómum,“ útskýrir Gunnar. „Velferð búfjárins er, samkvæmt þessum reglum sem við fylgjum, alltaf í fyrirrúmi. Það er ekki mælt með því að ormalyf sé notað án þess að gildar ástæður séu fyrir því, til að mynda að líkur séu fyrir því að ormasmit sé á svæðinu eða að slíkt smit komi eða sé komið upp. Í slíkum tilvikum krefst heilsa og velferð búfjárins þess að gripið sé til ráðstafana.

Verði ormahreinsun búfjár lögboðin, þá fylgjum við því auðvitað. Ég tel þó æskilegast að hún sé í samræmi við aðstæður.“-jss




Fleiri fréttir

Sjá meira


×