Erlent

Geimferðir einkavæddar

Síðasta geimferjan komin til jarðar úr síðustu geimferðinni.
nordicphotos/AFP
Síðasta geimferjan komin til jarðar úr síðustu geimferðinni. nordicphotos/AFP
Bandarísk stjórnvöld ætla framvegis að reiða sig á einkafyrirtæki, þegar koma þarf geimförum til alþjóðlegu geimstöðvarinnar, nú þegar bandarísku geimferjurnar hafa verið teknar úr notkun.

Í staðinn fyrir að ríkið standi straum af þessu mun ríkið borga einkafyrirtækjum fargjöld fyrir hvern geimfara, sem sendur verður á loft með væntanlegum farartækjum.

Einnig verði einkafyrirtækjum greitt fyrir að senda birgðir með ómönnuðum geimförum.

Nokkur fyrirtæki eru þegar byrjuð að undirbúa sig og stefna á að vera tilbúin með nothæf farartæki innan þriggja ára. Aðrir telja raunhæfara að reikna með fimm til tíu árum. Þangað til munu Rússar sjá um að ferja bandaríska geimfara til stöðvarinnar úti í geimnum, og fá greitt frá bandarískum stjórnvöldum fyrir hvern farþega.

Það var tilfinningaþrungin stund í stjórnstöð bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA á Canaveral-höfða þegar síðasta geimferjan, Atlantis, lenti í gær. Haldnar voru hástemmdar ræður og Mike Leinbach, sem hefur haft umsjón með geimskotum, sagði fólk engan veginn geta haldið aftur af tárunum.

Geimferðastofnunin vonast til þess að fé, sem sparast við að fá einkafyrirtæki til þess að sjá um geimflutningana, geti nýst til þess að þróa þá tækni sem þarf til að senda mönnuð geimför enn lengra út í geiminn en áður hefur þekkst, og þá til að byrja með til reikistjörnunnar Mars. - gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×