Innlent

Hlutabætur verða greiddar út í ágúst

GUÐBJARTUR HANNESSON
GUÐBJARTUR HANNESSON
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra áformar að setja reglugerð sem tryggir að þeir sem átt hafa rétt á hlutabótum fái fullar greiðslur í byrjun ágúst. Ráðherra mun leggja fram drög að reglugerð á næsta ríkisstjórnarfundi.

Á annað þúsund manns áttu það á hættu að fá ekki greiddar út atvinnuleysisbætur um næstu mánaðamót. Ástæðan var sú að Alþingi láðist að afgreiða lög um framlengingu á bráðabirgðaákvæðum laga um hlutabætur. Stjórn Atvinnuleysistryggingarsjóðs lagði til við velferðarráðherra að viðkomandi yrði veittur styrkur úr sjóðnum. Runólfur Ágústsson er formaður stjórnarinnar.

Í samþykkt stjórnarinnar segir að „ótækt sé að mistök í störfum þingsins valdi því að umræddir einstaklingar, sem máttu treysta því að fá bætur sínar greiddar, beri með þessum hætti fjárhagslegan skaða sem bitnar á framfærslu þeirra.“

Stjórnin segir að eðlilegt hefði verið miðað við aðdraganda og stöðu málsins að ríkisstjórnin setti bráðabirgðalög til að tryggja framfærslu bótaþeganna. Það hefur ekki verið gert. Frumvarp um framlengingu bráðabirgðaákvæða um hlutabætur verður lagt fyrir Alþingi í haust um leið og þing kemur saman. Guðbjartur segist á heimasíðu ráðuneytisins reikna með því að unnt verði að greiða út bætur í september samkvæmt lögunum.

Reglugerðin kveður á um styrk úr sjóðnum til þeirra sem þiggja hlutabætur. Viðkomandi sé tryggð sama fjárhæð til útborgunar 1. ágúst og ef um bætur hefði verið að ræða. Auk þess mun sjóðurinn greiða 8 prósent af styrkfjárhæð hvers og eins til lífeyrisjóðs hans.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×