Lífið

Íslenskt tónlistarfólk fær meiri pening í kreppunni

Anna Hildur Hildibrandsdóttir framkvæmdastjóri Útón er ánægð með þær átta milljónir sem Útón hefur fengið úthlutað.
Fréttablaðið/Anton
Anna Hildur Hildibrandsdóttir framkvæmdastjóri Útón er ánægð með þær átta milljónir sem Útón hefur fengið úthlutað. Fréttablaðið/Anton
Útón, útflutningsskrifstofa íslenskrar tónlistar, hefur fengið úthlutað átta milljónum króna í styrk frá fjárlaganefnd fyrir árið 2011. Styrkurinn hefur tvöfaldast síðan í fyrra þegar hann nam fjórum milljónum. „Ég er mjög ánægð með þetta," segir Anna Hildur Hildibrandsdóttir, framkvæmdastjóri Útón.

Fyrir utan þessa upphæð fær Útón tíu milljónir á ári frá ríkinu samkvæmt samningi á milli Samtóns (samtökum rétthafa íslenskrar tónlistar) og mennta-, utanríkis- og iðnaðarráðuneytanna.

„Ég er mjög sátt við að það skyldi vera tekið tillit til þess að við þurfum þennan pening til að geta ýtt þeim verkefnum úr vör sem eru á okkar könnu. Þau eru orðin æði mörg og þarna myndast líka grundvöllur til að við getum skapað fleiri tækifæri," segir Anna Hildur. „Útón hefur verið undirfjármögnuð skrifstofa frá upphafi og þetta þýðir að við getum haldið starfseminni áfram."

Anna tekur fram að fastaframlag til annarra kynningarmiðstöðva hafi verið hærra en Útón hafi fengið. Útón hafi því ákveðið að sækja til fjárlaganefndar til að geta meðal annars staðið undir auknu erlendu samstarfi sem skapar um leið tekjur og tækifæri.

Þrátt fyrir krepputíma telur Anna það vel réttlætanlegt að Útón fái meiri pening: „Í öllum þessum verkefnum okkar koma minnst þrefaldar tekjur á móti miðað við það sem lagt er í skrifstofuna," segir hún.

Stutt er síðan tónlistarhátíðin Iceland Airwaves fékk í sinn hlut fimm milljónir króna úr ríkissjóði á fjárlögum 2011 og því er ljóst að íslenskt tónlistarfólk getur litið framtíðina bjartari augum en áður.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.