Handbolti

Aron: Er á réttri leið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron Pálmarsson átti afar góðan leik með íslenska landsliðinu í dag og skoraði sex mörk í öðrum sigri Íslands á Þjóðverjum á jafn mörgum dögum, 31-27.

„Ég er mjög ánægður með þetta. Við erum á réttri leið nú þegar það eru sex dagar í fyrsta leik. Við þurfum alltaf að fínpússa eitthvað en það er ekki mikið verk óunnið."

„Það má alltaf bæta eitthvað og við dettum stundum niður inn á milli, bæði í vörn og sókn. Við þurfum því enn að vinna í því að halda góðum stöðugleika í okkar leik. En við erum á réttri leið," sagði Aron í samtali við Vísi eftir leikinn.

„Þýskaland er eitt af þeim liðum sem stefna hvað lengst í þessu móti. Við unnum þá tvisvar hér heima og það gefur rétta tóninn fyrir mótið og er gríðarlega sterkt."

Hann segist vera óhræddur við að nýta sín tækifæri þegar þau koma.

„Á meðan aðrir skjóta ekki þá er ég að taka upp byssuna," sagði hann og glotti til Ólafs Stefánssonar sem stóð rétt hjá.

„En mér líður vel og ég passa vel inn í leikkerfi liðsins. Ég hugsa og vona að þetta verði allt saman klárt eftir viku."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×