Innlent

Stóraukin framleiðsla á kjúklinga- og svínakjöti

Á meðan framleiðsla á lamba- og nautakjöti hefur staðið í stað hefur framleiðsla á svínakjöti tvöfaldast og á kjúklingakjöti fimmfaldast á aðeins fimmtán árum. Þetta kemur fram í riti Hagstofunnar, Ísland í tölum, sem gefið var út í dag.

Þar kemur fram að kindastofninn á Íslandi hefur minnkað um 30 þúsund kindur á fimmtán árum, og stóð samkvæmt nýjustu tölum ritsins í tæplega 470 þúsund ám. Á sama tíma hefur hænsnfuglum hins vegar fjölgað um 25 þúsund frá árinu 1994, en þeir eru um 200 þúsund í landinu.

Nautgripastofninn hefur hins vegar haldist nokkuð stöðugur og telur um 73 þúsund gripi, en það sama gildir um svín sem eru tæplega 4000 í landinu.

Framleiðslumynstrið í landbúnaði tók hins vegar nokkrum stakkaskiptum á árunum 94 til 2010. Á meðan framleiðsla á lamba- og nautakjöti hefur lítið sveiflast tók svína- og alifuglakjötið stökk.

Árið 2010 voru framleidd tæplega 6200 tonn af svínakjöti, sem er tæp tvöföldun á sextán árum. Það er þó ekkert miðað við alifugla, en 6900 tonn voru framleidd af því árið 2010 sem er fimmföldun frá árinu 1994.

Íslendingar virðast jafnframt vera sífellt sólgnari í mjólk, en 125 milljón mjólkurlítrar voru framleiddir árið 2010. Það er fjórðungsaukning á sextán árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×