Innlent

Segir að útrunninn kjúklingur hafi farið á spítala og elliheimili

Andri Freyr Viðarsson útvarpmaður á Rás 2.
Andri Freyr Viðarsson útvarpmaður á Rás 2.
Andri Freyr Viðarsson, sem er annar tveggja þáttastjórnenda útvarpsþáttarins Virkir morgnar á Rás 2, sagði í morgun frá því þegar hann vann hjá ónefndu kjúklingafyrirtæki hér á landi á tíunda áratug síðustu aldar. Hann hafi meðal annars unnið við það að meta það hvort að útrunninn kjúklingur gæti farið í marineringu og þaðan á spítala og elliheimili.

Í þættinum segir Andri frá því að hann hafi verið ungur þegar hann vann hjá fyrirtækinu og hafi því verið „strákurinn" í vinnunni. Hann hafi oft verið látinn í verkin sem aðrir nenntu ekki að sinna, til dæmis að þrífa bala og annað slíkt.

Á mánudagmorgnum segir Andri að hann hafi verið látinn í það að þefa af útrunnum kjúklingi sem kom úr verslunum eftir helgina. Hann hafi rifið upp pakningarnar og verið með tvo bala fyrir framan sig. Í annan balann hafi hann látið kjúkling sem lyktaði „viðbjóðslega" og honum hafi verið hent í ruslið. Í hinn balann hafi farið kjúklingur sem lyktað ekki eins illa og ekki verið „svo slæmur."

Þegar hann hafi verið kominn með tugi kílóa af kjúkling í balann sem var „allt í lagi" hafi sá kjúklingur verið baðaður upp úr marineringu. Það hafi oftast verið TexMex-marinering, segir hann. Kjúklingnum hafi því næst verið pakkað saman og sendur á elliheimili og á sjúkrahús.



Guðrún Dís Emilsdóttir, hinn þáttastjórnandinn, er hneyksluð á þessum aðferðum sem viðgengust hjá fyrirtækinu. „Ég hugsaði að ef fólk fær í magann þá er það allavega á spítala," sagði Andri Freyr í þættinum í morgun. Hann undirstrikar að þetta hafi verið vinnubrögðin á þeim tíma, það er að segja einhvern tíman á tíunda áratuginum, en hann viti ekki hvernig þetta er í dag. „Ég vona að aðferðirnar eru aðrar í dag," sagði Andri Freyr.

Hægt er að hlusta á þáttinn á vef Ríkisútvarpsins hér og kjúklingaumræðan hefst þegar einn og hálfur klukkutími er búinn af þættinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×