Innlent

Rannsaka fleiri brot félaga í Black Pistons

Lögregla fann meðal annars sverð, hníf og leðurbelti í íbúð annars ofbeldismannsins, en þeir hótuðu fórnarlambinu að skera sundur sinar í fótum hans og draga úr honum tennurnar. Sviðsett mynd.
Lögregla fann meðal annars sverð, hníf og leðurbelti í íbúð annars ofbeldismannsins, en þeir hótuðu fórnarlambinu að skera sundur sinar í fótum hans og draga úr honum tennurnar. Sviðsett mynd.
Tveir meðlimir vélhjólagengisins Black Pistons beittu mann, sem þeir réðust á og héldu nauðugum fyrr í mánuðinum, hrottalegum hótunum og ofbeldi. Þeir börðu hann klukkustundum saman í höfuðið og líkama með ýmsum áhöldum, hýddu hann með þykkri rafmagnssnúru og hótuðu honum að skornar yrðu í sundur sinar á fótleggjum og tennur dregnar úr honum. Þeir sögðu fórnarlambinu að það skuldaði þeim tíu milljónir króna.

Gæsluvarðhald yfir mönnunum, Ríkharð Júlíusi Ríkharðssyni, forsprakka Black Pistons, og Davíð Frey Rúnarssyni rennur út á morgun, en þeir sitja jafnframt í einangrun.

Í kjölfar þessa máls barst lögreglunni tilkynning um að mennirnir væri viðriðnir önnur mál af svipuðum toga. Í síðustu viku greindi maður lögreglunni frá því að hafa greitt ódæðismönnunum umtalsverða fjárhæð í því skyni að koma syni sínum undan þeim. Af ótta við mennina vildi hann ekki aðhafast frekar í málinu á sínum tíma. Lögreglan hefur nú tekið málið til rannsóknar og mun reyna að upplýsa það meðal annars með því að afla upplýsinga um bankareikninga Black Pistons-mannanna.

Enn fremur hefur lögreglan nýverið fengið upplýsingar um að Davíð Freyr hafi svipt annan mann frelsi og haldið föngnum og misþyrmt í bifreið og í iðnaðarhúsnæði. Rannsókn þess máls er á algjöru frumstigi, að því er fram kemur í gögnum frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu, sem send voru Hæstarétti.

Ofbeldismennirnir tveir sem sitja nú inni fyrir að hafa haldið manni nauðugum og misþyrmt sóttu hann að kvöldi þriðjudagsins 10. maí í iðnaðarhverfi á höfuðborgarsvæðinu. Honum var ekið að heimili Ríkharðs og misþyrmt þar. Barsmíðarnar stóðu yfir allt fram til hálf eitt um nóttina. Þá var hann fluttur með hettu yfir höfðinu í geymsluhúsnæði sem hann þekkti ekki. Þar var honum haldið til morguns en þá sótti Davíð Freyr hann og fór með hann aftur á heimili Ríkharðs, þar sem ofbeldismennirnir rukkuðu hann um ofangreinda „skuld“. Síðan var enn ekið með fórnarlambið sem tókst að sleppa út úr bílnum við Borgartún í Reykjavík um klukkan tólf á hádegi daginn eftir.

Við leit í íbúð Ríkharðs voru víða blóðblettir og sams konar sverð, hnífur og leðurbelti sem fórnarlambið hafði áður lýst.

ritstjorn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×