Sport

Abakumova setti heimsmeistaramótsmet og fékk gull í spjótkasti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Abakumova fagnar risakasti sínu.
Abakumova fagnar risakasti sínu. Nordic Photos / AFP
Rússinn Maria Abakumova hafði sigur eftir æsispennandi keppni í spjótkasti kvenna á heimsmeistaramótinu í frjálsum íþróttum í Daegu í Suður-Kóreu. Abakumova bætti perónulegan árangur sinn með kasti upp á 71,99 metra og setti um leið heimsmeistaramótsmet.

Tékkinn Barbor Spotakova taldi sig hafa tryggt sér sigur með kasti upp á 71,58 metra. Í það minnsta fagnaði hún sem sigurvegari. Abakumova kippti sér ekkert upp við risakast Spotakovu, steig á stokk og kastaði 41 sentimetra lengra.

Eins og fyrr sagði setti Abakumova heimsmeistaramótsmet. Gamla metið var sett á HM 2005 í Helsinki þegar Olisdeilys Menendez frá Kúbu kastaði 71,70 metra.

Í þriðja sæti í keppninni varð Sunette Viljoen frá Suður-Afríku sem kastaði 68,38 metra.

Ásdís Hjálmsdóttir kastaði 59,15 metra í undankeppninni. Sama kast í úrslitum hefði skilað Ásdísi í 9. sæti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×