Viðskipti erlent

Tölur á mörkuðum lækkuðu í morgun

mynd úr safni
Hlutabréfavísitölur um allan heim lækkuðu þegar markaðir opnuðu eftir helgina, en fjárfestar hafa þungar áhyggjur af skuldastöðu Grikklands og annarra evruríkja.

Enska FTSE vísitalan féll um tvö og hálft prósent í morgun, franska úrvalsvísitalan um heil fimm prósent og þýska Dax vísitalan um þrjú og hálft, en lækkunin hefur að örlitlu leyti gengið til baka þegar leið á morguninn.

Lækkunin kemur í kjölfar rauðra talna á mörkuðum hinumegin á hnettinum í Asíu og Eyjaálfu fyrr í nótt.

Það voru einkum hlutabréf banka sem féllu í verði, en stærstu bankar Frakklands og Þýskalands horfðu upp á blóðbað þegar bréf þeirra féllu um átta til tíu prósent við opnun markaða í morgun.

Stærsta ástæðan fyrir þessu snarpa verðfalli eru þungar áhyggjur fjárfesta af því að greiðslufall verði á skuldum Gríska ríkisins, og að skuldastaða Ítala hafi versnað, að því er Breska ríkisútvarpið greinir frá.

Viðskiptaráðherra þjóðverja fullyrti til að mynda að ekki væri hægt að útiloka möguleikann á að Grikkir stæðu ekki við skuldbindingar sínar, en aðalritari ríkisstjórnarflokksins frjálsra femókrata í Þýskalandi ljáði í dag máls á því að Grikkir þyrftu að yfirgefa myntsamstarf evruríkjanna.

Evran hefur einnig veikst gagnvart stærstu gjaldmiðlum heims vegna þessa og hefur ekki verið lægri gagnvart japanska jeninu í tíu ár.

Ávöxtunarkrafan á þýsk ríkisskuldabréf hefur hins vegar lækkað og er í sögulegu lágmarki, því fjárfestar líta á bréfin sem örugga fjárfestingu og leita því í þau þegar hætta steðjar að á mörkuðum.

Þessi þróun fylgir á eftir rauðum tölum fyrir helgi, en það var afsögn aðalhagfræðings evrópska seðlabankans sem kom óróa af stað þá.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×