Innlent

Dulin verðmæti liggja í hreinni orku

Forseti Íslands sagði á ráðstefnu í Alaska að ríki á norðurslóðum gætu lært margt af þróun íslenskra orkumála. 
Fréttablaðið/Valli
Forseti Íslands sagði á ráðstefnu í Alaska að ríki á norðurslóðum gætu lært margt af þróun íslenskra orkumála. Fréttablaðið/Valli
Möguleikar norðurslóða í orkumálum liggja ekki síst á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, jarðhita og fallvatna, sem eru hluti af duldum verðmætum svæðisins.

Þetta sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í ávarpi sínu á ráðstefnu í Alaska í upphafi vikunnar, og bætti við að þó umræða hafi stjórnast af möguleikunum á sviði jarðefnaeldsneytis geti framþróunin á Íslandi verið öðrum löndum fyrirmynd.

Ólafur minntist einnig á möguleikana á auknum vöruflutningum um Norður-Íshafið á næstu árum og þörfina á skýrri stefnumörkun hvað það varðar.

„Sú þörf sést ef til vill best á auknum áhuga Kínverja á samvinnu við Ísland. Raunin er að á síðasta áratug hef ég fundað oftar með kínverskum ráðamönnum og fulltrúum en ég hef tölu á.“

Ólafur bætti því við að hann hefði því miður ekki fengið nærri eins margar heimsóknir frá Bandaríkjunum.

Loks stakk hann upp á því að Ísland, Alaska og Rovaniemi-hérað í Finnland mynduðu með sér samvinnuvettvang um málefni tengd norðurslóðum.- þj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×