Innlent

Kæru Eimskips vísað frá

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála sagði rökstuðning Samkeppnisnefndar fullnægjandi.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála sagði rökstuðning Samkeppnisnefndar fullnægjandi.
Áfrýjunarnefnd samkeppnismála féllst í dag á kröfu Samkeppniseftirlitsins um frávísun á kæru Eimskips á þeim grundvelli að hún hafi borist eftir að fjögurra vikna kærufrestur var liðinn.



Þann 1. mars síðastliðinn birti Samkeppniseftirlitið Eimskipi höfnun sína á því að taka kvörtun fyrirtækisins til efnislegrar meðferðar en Eimskip krafðist frekari rökstuðnings á höfnuninni þar sem fyrirtækinu þótti skýringar Samkeppniseftirlitsins ófullnægjandi. Svarbréf frá Samkeppniseftirlitinu barst ekki fyrr en degi eftir að kærufrestur var útrunninn og kom þar fram það mat eftirlitsins að rökstuðningurinn hefði verið fullnægjandi, og var engu við hann bætt.



Eimskip kærði stuttu síðar ákvörðunina og hélt því fram að kærufrest bæri að framlengja sökum þess hve seint þeim hefði borist svar við kröfu sinni um frekari rökstuðning.



Þetta féllst Áfrýjunarnefnd samkeppnismála ekki á og sagði í úrskurði sínum að ákvæði um slíka framlengingu kærufrests geti eingöngu komið til skoðunar ef upphafleg ákvörðun hafi verið lítið eða ekkert rökstudd. Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins hafi hins vegar verið nægilega rökstudd og hafi þar af leiðandi ekki torvelt Eimskipi að kæra hana þegar hún birtist.

Sá vilji Eimskips að efna til frekari rökræðna um málið gæti ekki haft áhrif á kærufrestinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×