Fótbolti

Átti Gylfi Þór að verða miðvörður?

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Nordic Photos/Getty Images
Að sögn Ólafs Kristjánssonar, þjálfara meistaraflokksliðs Breiðabliks, leit út fyrir að Steve Coppell, þáverandi þjálfari Reading, vildi nýta krafta Gylfa Þórs Sigurðarssonar í stöðu miðvarðar. Þetta kom fram í máli Ólafs á þjálfaranámskeiði sem KSÍ stóð fyrir um síðustu helgi.

Ólafur heimsótti Reading ásamt fleiri íslenskum þjálfurum í janúar 2009. Hópurinn fékk að fylgjast með æfingu hjá Reading auk þess sem þeir ræddu við Íslendingana hjá félaginu. Á æfingunni spilaði Gylfi Þór í stöðu miðvarðar.

Á þessum tíma hafði Gylfi fengið fá tækifæri hjá Reading. Hann hafði spilað nokkra leiki á láni hjá Shrewsbury Town haustið 2008 og lauk tímabilinu hjá Crewe Alexandra undir stjórn Guðjóns Þórðarsonar vorið 2009.

Steve Coppell sagði af sér sem knattspyrnustjóri að loknu tímablinu sem má segja að hafi breytt möguleikum Gylfa hjá Reading til hins betra.

Undir stjórn nýs knattspyrnustjóra Brian McDermott varð hann stjarna Reading liðsins tímabilið sem í hönd fór. Haustið 2010, aðeins ári síðar, var hann keyptur til Hoffenheim í þýsku úrvalsdeildinni á um sex milljónir punda þar sem hann spilar nú.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×