Innlent

Óska eftir að ráðherra staðfesti einnig Holta- og Hvammsvirkjanir

Fyrirhuguð Hvammsvirkjun. Mynd/ Landsvirkjun.
Fyrirhuguð Hvammsvirkjun. Mynd/ Landsvirkjun.

Skeiða- og Gnúpverjahreppur hefur óskað eftir því að umhverfisráðherra staðfesti skipulag hreppsins hvað varðar tvær nýjar virkjanir, Hvammsvirkjun og Holtavirkjun. Skipulagið hefur legið óafgreitt í umhverfisráðuneytinu í á þriðja ár, segir Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps.

Hann segir að eftir dóm Hæstaréttar í gær, þar sem Flóahreppur hafði sigur í máli gegn umhverfisráðherra vegna Urriðafossvirkjunar, hafi Skeiða- og Gnúpverjahreppur sent ítrekun til umhverfisráðuneytisins á erindi sem hreppurinn sendi inn síðastliðið haust, þegar dómur héraðsdóms féll í máli Flóahrepps. Þá hafi ráðuneytið svarað því að beðið yrði eftir dómi Hæstaréttar.

Gunnar Örn kveðst mjög ánægður með hæstaréttardóminn í gær. Hann sýni að stjórnsýsla ráðherra hafi verið ófagleg, eins og Skeiða- og Gnúpverjahreppur hafi ávallt haldið fram, en sveitarstjórnin samþykkti Holta- og Hvammsvirkjanir inn á aðalskipulag í júnímánuði 2008.

Gunnar Örn segir að þeirra mál sé sambærilegt máli Flóahrepps. Kveðst hann ekki eiga von á öðru en að ráðherra staðfesti einnig þeirra skipulag og segir að annað yrði að teljast mjög óeðlilegt. Í ljósi reynslunnar af samskiptum við ráðuneytið komi sér þó ekkert lengur á óvart í þeim efnum.

Áður var búið að staðfesta virkjanirnar þrjár inn aðalskipulag sveitarfélaganna austan Þjórsár, Rangárþings ytra og Ásahrepps, og einnig Urriðafossvirkjun inn á skipulag Skeiða- og Gnúpverjahrepps.










Tengdar fréttir

Flóahreppur íhugar skaðabótamál gegn Svandísi

Sveitarstjóri Flóahrepps segir að hreppurinn muni kanna grundvöll þess að höfða skaðabótamál á hendur Svandísi Svavarsdóttur umhverfisráðherra vegna þess tjóns sem tveggja ára töf á aðalskipulagi hefur valdið.

Synjun umhverfisráðherra ógilt

Hæstiréttur staðfesti dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem synjun Svandísar Svavars­dóttur umhverfisráðherra á þeim hluta aðalskipulags Flóahrepps er varðar Urriðafossvirkjun er ógilt. Svandís áfrýjaði málinu í október síðastliðnum eftir að hún tapaði í héraði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×