Innlent

Samtök ferðaþjónustunnar uggandi vegna yfirvinnubanns flugumferðarstjóra

Ef kjarasamningar nást ekki við flugumferðarstjóra á næstu dögum gæti komið til allsherjaryfirvinnubanns. Samtök ferðaþjónustunnar eru uggandi.

Yfirvinnubann flugumferðarstjóra hefur hingað til einungis tekið til nætur- og helgarvakta, þ.e. frá klukkan átta á kvöldið til sjö á morgnana og um helgar. Í því felst að ef flugumferðarstjóri veikist á vakt, megi ekki kalla annan út í hans stað.

Nú hafa hins vegar flugumferðarstjórar greitt atkvæði um hvort grípa eigi til allsherjaryfirvinnubanns, ef samningar nást ekki á næstu dögum. Atkvæði hafa ekki verið talin, en niðurstaðan mun liggja fyrir síðar í kvöld. Ef marka má sambærilegar kosningar flugumferðarstjóra síðustu missera virðist hins vegar ríkja einhugur um að ráðast í slíkar aðgerðir. Yfirvinnubannið yrði þá í gildi hjá öllum flugumferðarstjórum, á öllum tímum sólarhringsins.

Kvöldyfirvinnubann flugumferðarstjóra hafði fyrst eiginleg áhrif í síðustu viku, þegar tvær vélar Icelandair lentu á Reykjavíkurflugvelli, því flugumferðarstjórinn sem átti að vera á vakt í Keflavík lá veikur heima.

Þá lýstu Samtök ferðaþjónustunnar yfir þungum áhyggjum af ástandinu. Bókanir bendi til þessa að þetta verði eitt stærsta ferðasumar Íslands og því sé allsherjaryfirvinnubann gríðarlegt áhyggjuefni. Ferðaþjónustan sé mjög viðkvæm fyrir slíkum truflunum og þær séu slæmar fyrir ímynd og orðspor Íslands sem ferðamannalands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×