Innlent

Leita að fornleifum við Landspítalann

Fornleifavernd ríkisins hófst í dag handa við að kanna hvort einhverjar fornleifar finnist á byggingarlóð nýja Landspítalans, nánar til tekið á túninu fyrir framan gamla spítalann. Þar stóð býlið Grænaborg í tæpa öld, eða frá því um 1830 þar til Landspítalinn var byggður árið 1928. Fjallað er um málið á vef nýja Landspítalans.

„Vegna fyrirhugaðra byggingaframkvæmda við nýjan spítala þarf að kanna hvort einhverjar mannvistarleifar sé þarna að finna og þetta er svona forkönnun á því," segir Kristinn Magnússon fornleifafræðingur hjá Fornleifavernd ríkisins. Hafist var handa við verkið eftir hádegi í dag og kom strax í ljós garður og diskabrot. Kristinn segir að ef eitthvað markvert finnist þurfi að undirbúa og framkvæma frekari rannsóknir.

Á vef spítalans kemur fram að í deiliskipulagslýsingu fyrir nýja spítalann kemur m.a. fram að Reykjavíkurborg hafi eignaðist Grænuborg árið 1914 og árið 1931 hafi Barnavinafélagið Sumargjöf reist leikskóla á túni Grænuborgar, sem fengið hafi nafn býlisins. Leikskólinn var rifinn á áttunda áratugnum og geðdeild Landspítalans reist á þeim stað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×