Innlent

Átta smíðavellir í borginni

Mynd: Reykjavíkurborg
Átta smíðavellir verða starfræktir í borginni í sumar í viðbót við það sumarstarf sem þegar hefur verið auglýst á Sumarvef ÍTR.

Smíðavellirnir sem eru fyrir börn á aldrinum 9-13 ára, fædd 1998-2002,  verða við Ársel, Rimaskóla, Hólmasel, Miðberg, Breiðholtsskóla, Háteigsskóla, Melaskóla og Álftamýrarskóla.

Flestir vellirnir hefja starfsemi 6. júní og standa yfir í 3-5 vikur. Skráningargjaldið er 1000 kr. og skráning fer fram á Rafrænni Reykjavík.

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að í sumar verði nóg framboð af afþreyingu í Reykjavík fyrir börn og unglinga á aldrinum 5 til 18 ára.

 Íþrótta- og tómstundasvið Reykjavíkur (ÍTR) býður auk smíðavallanna upp á sumarfrístund fyrir 6-9 ára börn, fædd 2001- 2004, á frístundaheimilum, sumarsmiðjur fyrir 10-12 ára börn, fædd 1998 - 2000, og sumaropnun í félagsmiðstöðvum fyrir 13-16 ára unglinga, fædda 1995-1997.

Að auki býður ÍTR upp á siglinganámskeið og klúbba í Siglunesi fyrir 9 ára og eldri, sem og bátaleigu fyrir alla fjölskylduna.

Dýranámskeiðin í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum standa til boða fyrir börn á aldrinum 10-12 ára.

Skráning er hafin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×