Innlent

Reka bestu vefverslun Danmerkur

Sindri Már Finnbogason og Björn Hr. Björnsson starfa hjá Billetlugen í Danmörku.
Sindri Már Finnbogason og Björn Hr. Björnsson starfa hjá Billetlugen í Danmörku.
Vefsíðan Billetlugen.dk, þar sem fimm Íslendingar starfa, var valin besta vefverslun Danmerkur þegar vefverðlaunin E-Handelprisen voru afhent fyrir skömmu.

„Þetta kom aðeins á óvart. Ég var ekki mjög áhyggjufullur fyrir þetta en þegar við mættum á svæðið byrjaði ég að vera mjög stressaður," segir Sindri Már Finnbogason hjá Billetlugen. „Það voru í kringum þrjú hundruð manns þarna og þetta er frekar stór viðburður sem er haldinn þarna árlega. Það er rosaleg viðurkenning að fá þetta."

Verðlaunin eru að vonum góð kynning fyrir Billetlugen.dk, sem er byggð á síðunni Midi.is. „Það var ekkert rosalega gott orðspor sem fór af Billetlugen þegar við komum út. Þessi verðlaun undirstrika þá vinnu sem við erum búnir að leggja í hlutina til að gera fyrirtækið betra," segir Sindri.

Billetlugen selur um þrjár milljónir miða á hverju ári, þar á meðal fyrir Hróarskelduhátíðina, Tívolíið, skemmtistaðinn Vega, Parken og Danmarks Radio. Sindri Már og félagar hafa einnig opnað nýja miðasölusíðu í Svíþjóð undir nafninu Biljettforum.se og eru að undirbúa aðra til viðbótar í Noregi sem stendur til að opna í júní.

- fb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×