Feðgarnir Óskar og Pan Thorarensen sem skipa rafdúettinn Stereo Hypnosis spila á lista- og raftónlistarhátíðinni Harvest Festival í Kanada í dag. „Þetta verður rosalega spennandi,“ segir Pan.
Þeim feðgum var boðið á hátíðina af kanadískum tónlistarmönnum sem Pan kynntist á netinu. „Þeir vissu hverjir við vorum og vildu fá okkur út. Ég hef aldrei hitt þessa menn en við erum samt búnir að heyrast í mörg ár í gegnum tónlistina,“ segir hann.
Hátíðin verður haldin um 240 kílómetrum norður af Toronto. Aðrir erlendir flytjendur á hátíðinni verða Marc Romboy frá Berlín, Osunlade frá Grikklandi og PerfectStranger frá Ísrael.
„Við gistum í tvær nætur í heimahúsi í Toronto hjá fólkinu sem fékk okkur á hátíðina og okkur verður síðan keyrt á hátíðina í ekta amerískri skólarútu. Þarna verða allir í tjöldum og þetta verður ekki ólíkt því sem við erum búnir að vera að gera en þetta er samt miklu stærra,“ segir hann og á við raftónlistarhátíðina Undir jökli sem þeir feðgar hafa skipulagt á Hellissandi. Mörg skúlptúrlistaverk verða sýnd á kanadísku hátíðinni auk þess sem glæsilegar eldsýningar verða haldnar.
Um tvö þúsund manns hafa keypt sér miða á hátíðina og nokkur svið verða í boði fyrir hljómsveitirnar, þar á meðal eitt píramídasvið. Spurður hver borgi fyrir ferðalagið segir Pan að Loftbrú komi til móts við feðgana varðandi flugið en fæði og uppihald er greitt af tónleikahöldurum. - fb
Ekið í skólarútu á tónlistarhátíð
