Lífið

100% hreinskilinn Ragnar ZSolberg

Ragnar ZSolberg fer alla leið í hreinskilninni á nýrri sólóplötu. Hann býr nú í Svíþjóð ásamt unnustu sinni og er búinn að setja saman hljómsveit þar í landi.

„Ég veit ekki hvort það hafi breyst mikið í gegnum tíðina, en mér finnst textar og tónlist ekki koma eins vel út ef það er ekki 100% hreinskilni á bakvið," segir tónlistarmaðurinn Ragnar ZSolberg. Og hann er ekki að grínast, eitt laganna á nýju plötunni The Hanged Man fjallar til að mynda um það sem gerist inni í svefnherbergi Ragnars og unnustu hans.

„Það er ekkert tabú - alls ekki. Ef eitthvað er þá er það bara gott fyrir sambandið," segir hann.

The Hanged Man er þriðja sólóplata Ragnars. Hann byrjaði að vinna að plötunni í apríl og samdi fyrstu lögin þegar hann var fastur á Íslandi á meðan aska úr Eyjafjallajökli dreifðist yfir Evrópu. Platan er að mestu tekin upp í Svíþjóð, en þar býr Ragnar ásamt Sóleyju Ástudóttur unnustu sinni.

„Svo þurfti ég að koma til Íslands í jarðarför í haust og nýtti tækifærið og trommaði yfir öll lögin," segir Ragnar. „Þá samdi ég líka seinasta lagið á plötunni sem heitir Funerals. Þetta var nefnilega önnur jarðarförin sem ég fór á einum mánuði. Báðar ömmur mínar dóu."

Platan er aðeins komin út á netinu á vefsíðu Ragnars og Gogoyoko. Hann hyggst láta prenta eintök og dreifa á Íslandi og í Svíþjóð, þar sem hann ætlar að fylgja plötunni eftir með innfæddum tónlistarmönnum.

„Ég er kominn með band þarna úti og er að byrja að æfa með þeim strákum í janúar, febrúar," segir hann og játar að rætur þeirra liggi í þungarokkinu - rétt eins og hans eigin. „Það er svo æðislegt með metalhausana í Svíþjóð, allavega þessa sem ég þekki, að þeir geta líka sest niður og hlustað á Bítlana eða Abba. Þeir eru algjörlega fordómalausir."

atlifannar@frettabladid.is










Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.