Erlent

Sker upp herör gegn fíkniefnaneyslu

Forsætisráðherra Taílands, Yingluck Shinawatra, vill draga úr neyslu eiturlyfja í heimalandi sínu. Fréttablaðið/AFP
Forsætisráðherra Taílands, Yingluck Shinawatra, vill draga úr neyslu eiturlyfja í heimalandi sínu. Fréttablaðið/AFP
Neytendum metamfetamíns hefur fjölgað mikið í Taílandi síðustu ár. Stjórnvöld ætla að skera upp herör gegn eiturlyfjaneyslunni. Í Taílandi eru ein hörðustu viðurlög í heimi gegn sölu og smygli á fíkniefnum. Um tíma voru þeir sem fundnir voru sekir um slíkt teknir af lífi.

Neytendum metaamfetamíns hefur fjölgað um hundrað þúsund síðastliðin sex ár og er talið að þeir séu nú um 1,1 milljón talsins. Neyslan er mest í röðum byggingaverkamanna, að sögn breska dagblaðsins Guardian.

Yingluck Shinawatra, sem nýverið tók við embætti forsætisráðherra í Taílandi, ætlar að herða tökin og eyða vandanum á næstu tólf mánuðum, að sögn Guardian.

Mannréttindasamtök á borð við Amnesty International vara við hertum aðgerðum. Þau benda á að þegar Thaksin Shinawatra, bróðir núverandi forsætisráðherra, gegndi sama embætti fyrir að verða áratug, hafi hann látið her og lögreglu ganga hart fram gegn eiturlyfjasmyglurum og fíkniefnasölum. Talið er að á þriðja þúsund manns hafi verið teknir af lífi án dóms og laga. Komið hefur í ljóst að á þremur mánuðum eftir að viðurlög voru hert gegn eiturlyfjum í landinu árið 2003 hafi rúmlega 2.500 manns verið drepnir. Lögregla kenndi glæpahópum um ódæðið.

- jab




Fleiri fréttir

Sjá meira


×