Innlent

Vilja fund um skýrslu sérfræðinganna

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, situr í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Auk hans hafa sjálfstæðismennirnir Jón Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson óskað eftir fundi í nefndinni.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokks, situr í sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Auk hans hafa sjálfstæðismennirnir Jón Gunnarsson og Einar K. Guðfinnsson óskað eftir fundi í nefndinni.
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks- og Framsóknarflokks í sjávarútvegs- og landbúnarðarnefnd Alþingis hafa óskað eftir því að boðað verði til fundar í nefndinni vegna skýrslu hagfræðinga um frumvörp sjávarútvegsráðherra um breytingar á stjórn fiskveiða. Þeir vilja að höfundar skýrslunnar sem kynnt var í síðustu viku verði boðaðir á fundinn.

Sérfræðingahópur á vegum Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sem hann fól að fara yfir frumvörp hans um stjórn fiskveiða, gerir margar og alvarlegar athugasemdir við frumvörpin. Nái þau fram að ganga vinni þau gegn hagræðingu í greininni, geri nýliðun erfiðari og fleira.

Einar K. Guðfinnsson, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra og fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsnefnd, sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar þessa gagnrýni ekki koma sér á óvart og að þetta væri rothögg á sjávarútvegsstefnu ríkisstjórnarinnar. Stefnan væri auk þess stórhættuleg þjóðfélaginu.

Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, telur að breytingar á kvótakerfinu eigi ekki einungis að skoða út frá hagfræði því einnig verði að huga að samfélagslegum breytingum. Svandís var gestur í þætti Sigurjóns M. Egilssonar á Bylgjunni í dag. Þar var hún spurð út í niðurstöður sérfræðinganna. Hún sagði flesta þá sem gagnrýnt hafa frumvarpið horfa á það út frá hagfræði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×