Innlent

Konur fá frítt inn á Árbæjarsafnið

Frá Árbæjarsafni. 19. júní er hátíðisdagur þar sem því er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi kosningarétt til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá.
Frá Árbæjarsafni. 19. júní er hátíðisdagur þar sem því er fagnað að 19. júní 1915 fengu konur á Íslandi kosningarétt til Alþingis þegar konungur samþykkti nýja stjórnarskrá. Mynd/GVA
Skyggnst verður inn í heim genginna reykvískra kvenna á 19. öld af öllum stigum þjóðfélagins á Árbæjarsafni í dag, Kvennréttindadaginn. Á þessum degi árið 1915 fengu íslenskar konur kosningarétt og af því tilefni er frítt inn fyrir konur á Árbæjarsafnið í dag.

„Án framlags kvenna væri margt öðruvísi í Reykjavík,“ segir í tilkynningu frá Helgu Maureen Gylfadóttur, safnverði Árbæjarsafnsins.

Boðið verður upp á leiðsagnir um safnsvæðið klukkan 13 og 15 þar sem saga kvenna í Reykjavík verður í forgrunni. „Gestir hitta fyrir Maddömuna í Suðurgötu 7 og vinnukonu hennar og eflaust rekast þeir líka á vatnsberann Gunnsu grallara sem ber vatn í hús á safnsvæðinu. Í Þorpinu verður mikið um að vera, stórþvottur, lummubakstur og fiskvöskun því þau voru jú mörg handtökin hjá húsmæðrum í Reykjavík líkt og nú.“

 

Þá heldur Arndís Árnadóttir, listsagnfræðingur, erindi klukkan 14 um híbýlahætti í Reykjavík á 19. öld þegar borgarlegir lífshættir voru að festa þar rætur og heimilið og betri húsakynni fengu aukið samfélagslegt vægi. Arndís sýnir valda stóla úr safneign Árbæjarsafns og ræðir um strauma og stefnur í húsgagnagerð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×