Gunnar Kolbeinn Kristinsson hnefaleikamaður hjá Hnefaleikafélaginu Æsir er á leiðinni á heimsmeistaramótið í Hnefaleikum sem fer fram í Aserbaídsjan 22. september til 10. október næstkomandi.
Gunnar Kolbeinn sem er þungavigtarmaður og tvöfaldur Íslandsmeistari er fyrsti Íslendingurinn sem tekur þátt á heimsleikum í Hnefaleikum. Hann er nú staddur í æfingabúðum á Írlandi þar sem lokaundirbúningur hans fyrir heimsmeistaramótið fer fram.
Gunnar Kolbeinn er búinn að keppa mikið í Evrópu seinustu ár og hann hefur unnið til verðlauna á alþjóðlegum mótum. Í fyrra fór Gunnar í tveggja mánaða æfingabúðir til Los Angeles þar sem hann æfði hjá heimsfrægum þjálfurunum eins og Freddie Roach og Macka Foley. Þeir hafa þjálfað marga heimsmeistara.
Á Íslandi hefur Gunnar Kolbeinn tvisvar unnið Íslandsmeistaratitilinn, árið 2009 og 2011. Árið 2010 var enginn til að keppa á móti honum. Gunnar Kolbeinn stefnir hátt en hans markmið er að komast á Ólympíuleikana á næsta ári sem verða í London.
Gunnar fyrsti Íslendingurinn til að fara á HM í hnefaleikum
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
