Handbolti

Hreinn Þór hættur í handbolta

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Hreinn Þór Hauksson.
Hreinn Þór Hauksson. Mynd/Vilhelm
Hreinn Þór Hauksson, leikmaður Akureyrar, er mjög líklega hættur í handbolta en hann mun fljótlega halda í nám í Svíþjóð.

Þetta staðfesti hann í samtali við Vísi. „Eins og málin standa nú þá er ég hættur í handbolta,“ sagði Hreinn sem hefur verið mikilvægur hlekkur í liði Akureyrar.

Norðanmenn urðu deildarmeistarar í vetur en töpuðu í úrslitaeinvíginu um titilinn fyrir FH. „Ég hefði endað þetta með öðrum hætti, ég neita því ekki,“ bætti hann við. „Ég skil þó sáttur við sportið þó það er að sjálfsögðu eftirsjá að góðum félögum.“

Atli Hilmarsson á ekki von á því að lið hans muni missa fleiri leikmenn í sumar. „Það er reyndar spurning með Odd (Gretarsson). Ég veit ekki hvernig hans mál standa,“ sagði Atli en Oddur fór nýverið til reynslu hjá þýska úrvalsdeildarfélaginu Wetzlar og bíður viðbragða þaðan.

Geir Guðmundsson lék ekkert með Akureyri á síðari hlutatímabilsins en hann greindist með blóðtappa í handlegg á milli jóla og nýárs.

„Hann fór í aðgerð á dögunum sem gekk vel. Ég á von á því að hann verði klár í sumar. Geir hefur æft með okkur í vetur og staðið sig mjög vel. Hann er því í toppformi.“*

Atli segir að hann vilji gjarnan styrkja liðið fyrir næsta tímabil. „Okkur langar í einn leikmann í viðbót og það er spurning hvað verður úr því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×