Viðskipti innlent

Eitt stórt rekstrarfélag

Íslandsbanki og dótturfélög hans eiga hluti í 27 félögum. Þar af á bankinn sjálfur beinan eignarhlut í fimm félögum. Þau eru Sjóvá (9,2%), N1 (24,73%), Icelandair Group (21%), Glitnir Real Estate Fund (64,4%) og Smyrlaheiði (100%). Þau tvö síðastnefndu eru félög utan um fasteignir.

Til viðbótar á bankinn dótturfélagið Miðengi, sem var stofnað til að fara með eignarhald og umsýslu fyrirtækja í eigu bankans. Miðengi á hlut í samtals 22 félögum.

Stærsta einstaka rekstrarfélagið sem er í fullri eigu Miðengis er Jarðboranir en félagið er í söluferli. Félagið á einnig 71,1% hlut í fragtflugfélaginu Bláfugli, 71,1% hlut í IG Invest og 62,9% hlut í sameinuðu félagi utan um bifreiðaumboðin B&L og Ingvar Helgason. Það síðastnefnda er í söluferli og verður gengið frá sölu þess bráðlega.

Í tilkynningu frá Íslandsbanka vegna umfjöllunar um eignarhald banka á fyrirtækjum segir að „Hafa ber í huga að í sumum tilvikum eru fleiri en ein kennitala tengd félagi og því getur verið villandi að telja kennitölur frekar en hvert félag fyrir sig. Að auki er nokkuð um að lítil starfsemi sé í félögum í eigu bankans, t.a.m. í félögum sem stofnuð hafa verið um stakar fasteignir […] Miðengi hefur lagt ríka áherslu á að vinnubrögð félagsins séu gagnsæ og starfsreglur skýrar auk þess sem lögð hefur verið áhersla á opið söluferli eigna. Stefna bankans er að selja félög sem hann hefur eignast, að hluta til eða að fullu, og eru í óskyldum rekstri“.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×