Innlent

Dómsmál ef álögur lækka ekki

Andrés Magnússon
Andrés Magnússon
Verði reglum ekki breytt til samræmis við álit umboðsmanns Alþingis, sem segir fyrirkomulag tollaálagningar á innfluttar landbúnaðarvörur ólöglegar, verður málið kært til dómstóla. Þetta segir Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu (SVÞ).

Fyrirtækið Innnes sótti í gær um heimild til að flytja inn 100 kíló af nautakjöti. Heimildin var afgreidd með 112 prósenta álagningu. Það er í samræmi við álagningu sem landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra hefur heimild til að leggja á innfluttar landbúnaðarvörur. Umboðsmaður Alþingis hefur úrskurðað að sú heimild brjóti í bága við stjórnarskrá.

Andrés segir að farið verði fram á að tollstjóri endurskoði álagninguna í ljósi álits umboðsmanns. Með umsókninni hafi málinu verið komið í réttan farveg og hún kalli fram viðbrögð af hálfu kerfisins.

„Nú komast þeir ekki hjá því að svara. Ég hef lagt fjölda skilaboða inn í ráðuneytið en ekki heyrt bofs þaðan,“ segir Andrés.

Umboðsmaður úrskurðaði í júlí að heimild til álagningar stangist á við stjórnarskrá. Álagningarnar eru sagðar of víðtækar. Í fréttatilkynningu frá SVÞ segir að niðurstaða umboðsmanns sé alvarleg áminning um að víða séu brestir í lagaumgjörð íslenskrar stjórnsýslu. „Um árabil hefur ráðherra byggt ákvarðanir sínar um tollkvóta á heimildum, sem stóðust ekki grundvallaratriði stjórnarskrár.“- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×