Skoðun

Verkfall leikskólakennara = að standa með leikskólastarfi

Kristín Dýrfjörð skrifar
Haustið 2008 hrundi Ísland. Við sem þjóð stóðum eftir slegin og alvarleg. Á flestum vinnustöðum skapaðist sátt um að sækja ekki launahækkanir og margir tóku á sig lækkanir í einu eða öðru formi. Leikskólarnir tóku sinn skerf eins og aðrir. Rétt fyrir hrunið hafði verið gengið frá samningi við fólk í sama stéttarfélagi og leikskólakennarar, grunnskólakennara. En samningar við leikskólakennara eins og aðra voru slegnir út af borðinu.

Inni á leikskólum veltu leikskólakennarar fyrir sér sparnaði og yfirvöld skáru af nærri allt sem ekki var hreinlega samningsbundið. Leikskólar hafa verið sameinaðir og stjórnunarstöður lagðar niður, yfirvinna bönnuð (hún var ekki mikil fyrir), starfsmannafundir lagðir af, dregið úr afleysingum, fé til símenntunar og námsleyfa skorið niður og jafnvel lagt af. Leikskólum er ætlað að sjá til þess að börn fái næringarríkan og góðan mat fyrir minna fé og svo framvegis. Innan leikskóla veltir starfsfólk hverri einustu krónu fyrir sér, hvergi er bruðlað.

Leikskólakennarar hafa að mestu mætt ástandinu af skilningi, enda alltaf gert ráð fyrir að þeim yrði bætt það upp að vera samningi á eftir. Að þeir séu í raun að semja um tvo samninga núna. Nú er komið að skuldadögum, það er ekki hægt að skera meira. Nú er komið að því að leikskólakennarar standi með sjálfum sér. Ef ekki, er hætta á atgervisflótta og að stéttin brenni út.

Það getur verið að sveitarfélög hafi ekki efni á hækkunum en þau hafa enn minni efni á útbrunnum leikskólakennurum og leikskóla í krísu. Nú ríður á að foreldrar sýni leikskólakennurum skilning og samstöðu. Að þeir ýti á yfirvöld um að semja.




Skoðun

Sjá meira


×