Innlent

Máli Sigurðar ekki vísað frá - aðalmeðferðin fer líklega fram í haust

Sigurði Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings.
Sigurði Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings.
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur, sem hafnaði að fella niður mál Kaupþings á hendur Sigurði Einarssyni, fyrrum stjórnarformanni bankans. Lögmaður bankans býst við að aðalmeðferð í málinu fari fram í september næstkomandi.

Þegar héraðsdómur kvað upp úrskurð sinn mætti lögmaður Kaupþings hf. ekki á þingið og krafðist Sigurður þá að málið yrði fellt niður og honum úrskurðaður málskostnaður. Í úrskurði héraðsdóms sagði að réttaráhrif sem bundin væru við ákvörðun um nýtt þinghald á dómþingi yrðu ekki virk nema þeirrar ákvörðunar væri getið í þingbók. „Þar sem það hefði ekki verið gert yrðu útivistaráhrif samkvæmt 105. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ekki bundin við fjarveru lögmanns Sigurðar úr þinghaldinu. Með hliðsjón af f. lið 1. mgr. 97. gr. laga nr. 91/1991 hefði fjarvist úr þinghaldi jafngilt lögmætum forföllum við fyrirtöku málsins, sagði í úrskurðinum.

Lögmaður Kaupþings hf., hélt því fram fyrir Hæstarétti að eftir munnlegan flutning málsins um frávísunarkröfu Sigurðar hefði dómari skýrt frá því að hann hygðist kveða upp úrskurð tiltekinn dag á tilteknum tíma. Tímasetningunni hefði síðar verið breytt án þess að hann hefði haft um það upplýsingar. „Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur,“ segir á vef Hæstaréttar.

Guðni Á. Haraldsson, lögmaður Kaupþings hf., segir í samtali við Vísi að hann búist við því að aðalmeðferðin í málinu fari fram í september næstkomandi. Málið snýst um niðurfellingu á lánum sem Kaupþing veitti Sigurði upp á 549 milljónir króna. Héraðsdómur mun fjalla um hvort að gamla bankanum var heimilt að fella niður persónulega ábyrgð Sigurðar á lánunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×