Handbolti

Guðmundur: Bið þjóðina afsökunar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson sagði það vera algjöran skandal hvernig íslenska landsliðið spilað í dag gegn Þýskalandi í undankeppni EM 2012.

Ísland tapaði þá, 39-28, og er dottið niður í þriðja sæti síns riðils í undankeppninni en aðeins efstu tvö komast áfram í sjálfa úrslitakeppnina.

„Ég vil byrja á því að biðja þjóðina afsökunar fyrir hönd liðsins," sagði hann. „Ég er mjög svekktur en við spiluðum illa frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu."

„Ég hafði áhyggjur af því að menn væru enn að baða sig í einhverjum ljóma eftir fyrri leikinn og ræddi þetta við ýmsa menn, þar á meðal leikmennina, því ég vissi hvað myndi bíða okkar hér."

„Við þurftum að fara inn í leikinn af miklum krafti sem við gerðum ekki. Ég er mjög óánægður með hvernig leikmenn mættu til leiks en mér fannst þeir ekki nægilega einbeittir. Við þessar aðstæður fer það illa."

„Nú verðum við gjöra svo vel að taka á okkar málum og einbeita okkar að því sem eftir er. Við getum lært margt af þessum leik en mér fannst ákveðinn andlegur þáttur bregðast í dag. Einbeitingin og alvarleikinn var ekki til staðar í dag og því fór sem fór. Það er algjör skandall af okkar hálfu."

Viðtalið í heild sinni má sjá hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×