Handbolti

Vignir væri til í að hlusta á Lionel Richie í hálfleik

Henry Birgir Gunnarsson í Halle Westfalen skrifar
Varnarjaxlinn Vignir Svavarsson kannast vel við Gerry Weber-höllina enda leikur hans gamla félag, Lemgo, alltaf nokkra leiki á ári í þessari skemmtilegu höll.

"Þetta verður skemmtilegt. Ég hlakka bara til að spila þarna. Ég vona að við eigum ekki von á of miklum látum en það getur myndast virkilega góð stemning þarna ef kofinn er fullur," sagði Vignir en hvað þarf að varast í leik Þjóðverjanna?

"Við þurfum að stoppa skytturnar þeirra. Ef við náum okkar varnarleik upp og markvarslan kemur með er ég ekki í nokkrum vafa um að við munum taka þá," sagði Vignir sem skartar myndarlegri mottu líkt og fleiri.

"Ég tók furry febrúar þar sem ég rakaði mig ekki neitt. Ég rakaði mig svo 1. mars og skildi mottuna eftir."

Hin glæsilega Gerry Weber-höll er einnig notuð undir tónleika og Vignir skellti sér einmitt á tónleika með Lionel Richie þar fyrir nokkrum árum.

"Ég efast um að stemningin verði eins góð á leiknum og á þeim tónleikum. Það var ógleymanleg kvöldstund. Það væri flott ef þeir myndu spila kallinn fyrir leik. Ég væri líka alveg til í að heyra All night long í hálfleik en ég efast um að það gerist," sagði Vignir léttur.

Hér má síðan hlusta á All night long með Lionel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×