Tónlist

Prýðilegt pabbarokk Wilco

Áttunda hljóðversplata bandarísku hljómsveitarinnar Wilco kemur út í næstu viku. Jeff Tweedy og félagar gefa plötuna út sjálfir og eru á leiðinni í tónleikaferð til Evrópu.

Tvö ár eru liðin síðan hin vel heppnaða og Grammy-tilnefnda Wilco (The Album) kom út. Hljómsveitin, sem sumir hafa viljað stimpla sem þroskað pabbarokkband, fór í stóra tónleikaferð til að fylgja henni eftir en tók að henni lokinni sitt lengsta frí til þessa, síðari helming síðasta árs. Forsprakkinn Jeff Tweedy, sem er 44 ára, fékk óvenju langa hvíld til að semja efni á nýja plötu og svo ferskur var hann við lagasmíðarnar að fyrst stóð til að taka upp tvær plötur en á endanum var ein látin nægja.

Útkoman nefnist The Whole Love og er þriðja platan sem Wilco tekur upp með núverandi liðsuppstillingu, sem er frá árinu 2004. Þá gengu gítarleikarinn Nels Cline og gítar- og hljómborðsleikarinn Patrick Sansone til liðs við bandið. Fyrir voru þeir Tweedy, bassaleikarinn John Stirratt, trommarinn Glenn Kotche og Mikael Jorgensen hljómborðsleikari.

Wilco var stofnuð 1994 eftir að jaðarkántrísveitin Uncle Tupelo með Tweedy um borð lagði upp laupana. Hann stofnaði nýtt band, Wilco, með öllum fyrrverandi liðsmönnum Uncle Tupelo nema söngvaranum Jay Farrar. Fyrsta platan, A.M., kom út 1995 og var tónlistin í jaðarkántrístíl, líkt og efnið frá Uncle Tupelo. Platan fékk hins vegar ekki eins og góðar viðtökur og Wilco-menn höfðu vonast eftir. Þeir ákváðu að breyta til og lagasmíðarnar urðu í framhaldinu fjölbreyttari og tilraunakenndari með meiri áhrifum úr rokki og popptónlist.

Fjórða platan, Yankee Hotel Foxtrot, kom út 2002 og vakti sérstaka athygli vegna þess að útgáfufyrirtækinu Reprise Records fannst hún ekki nógu aðgengileg, neitaði að gefa hana út og leysti Wilco undan samningi. Í framhaldinu samdi hljómsveitin við Nonesuch Records, sem gaf plötuna út. Bæði þessi útgáfufyrirtæki voru undir sama hatti hjá risanum Time Warner, sem gerði málið hið undarlegasta. Yankee Hotel Foxtrot er nú vinsælasta plata Wilco til þessa og hefur selst í hátt í 700 þúsund eintökum. Platan kom hljómsveitinni á kortið og næsta útgáfa, A Ghost Is Born, varð sú fyrsta frá Wilco til að komast á topp tíu á Billboard-listanum. Tvenn Grammy-verðlaun fylgdu í kjölfarið.

Wilco hefur núna stofnað eigið útgáfufyrirtæki, dBpm, þar sem The Whole Love kemur út. Sveitin er um þessar mundir á tónleikaferð um Bandaríkin til að fylgja henni eftir og byrjar síðan ferðalag sitt um Evrópu í Glasgow 24. október.

freyr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.