Lífið

Svartur á leik seld til Sviss

Svartur á leik hefur nú þegar verið seld til Bretlands og Sviss auk allra Norðurlandaríkjanna. Þórir Snær segir þetta góðan árangur í ljósi þess að viðkomandi aðilar hafi eingöngu séð þriggja mínútna kynningarbút.
Svartur á leik hefur nú þegar verið seld til Bretlands og Sviss auk allra Norðurlandaríkjanna. Þórir Snær segir þetta góðan árangur í ljósi þess að viðkomandi aðilar hafi eingöngu séð þriggja mínútna kynningarbút.
Svissneska dreifingarfyrirtækið Frenetic Films hefur fest kaup á dreifingarréttinum að íslensku kvikmyndinni Svartur á leik eftir Óskar Þór Axelsson. Myndin hefur nú þegar verið seld til allra Norðurlandaríkjanna og Bretlands en þar keypti Entertainment One dreifingarréttinn. TrustNordisk sér um söluna á myndinni og hefur fjöldi annarra dreifingaraðila sýnt henni mikla athygli. Myndin byggir á samnefndri sögu Stefáns Mána og segir frá því þegar undirheimar Reykjavíkur tóku stórstígum breytingum í byrjun aldarinnar.

Þórir Snær Sigurjónsson, einn af framleiðendum myndarinnar, segir þetta vera mjög fínan árangur, viðkomandi fyrirtæki borgi vel, en hann var hins vegar ekki reiðubúinn til að gefa upp hversu há fjárhæðin væri. „En þetta er líka merkilegt í ljósi þess að það eina sem þeir hafa séð er þriggja mínútna langur kynningarbútur. Sem hefur reyndar mælst mjög vel fyrir," útskýrir Þórir. Samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins þykir stiklan allsvakaleg og gefa til kynna mikið ofbeldi, sem raunar er daglegt brauð í glæpaheimum Íslands.

Þá viðurkennir Þórir að það skemmi ekkert fyrir að í framleiðandateyminu séu Chris Briggs, sem hefur meðal annars framleitt Hostel og Poseidon, og hinn danski Nicolas Winding Refn. „Nöfn þeirra hjálpa náttúrulega til, enda Refn sjóðheitur um þessar mundir eftir velgengni Drive," segir Þórir. Með aðalhlutverk í Svartur á leik fara þeir Þorvaldur Davíð Kristjánsson, Jóhannes Haukur Jóhannesson og Egill Einarsson. Frumsýning á Íslandi verður snemma árs 2012.

- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.