Innlent

Jafnmargir hlynntir og andvígir hernaði

Svipað hlutfall landsmanna styður hernaðaríhlutun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins (NATO) í Líbíu og er andvígt hernaðinum, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins.

Alls sögðust 38,8 prósent mjög eða frekar hlynnt hernaðaraðgerðunum en 36,5 prósent segjast mjög eða frekar andvíg. Um 24,7 prósent segjast hvorki hlynnt né andvíg.

Karlar virðast samkvæmt könnuninni talsvert herskárri en konur. Alls sögðust 44,8 prósent karla mjög eða frekar hlynnt hernaðaraðgerðum í Líbíu en 32,3 prósent kvenna.

Talsverður munur var á afstöðu fólks til hernaðaraðgerða NATO eftir því hvaða stjórnmálaflokk viðkomandi sagðist myndu kjósa yrði gengið til þingkosninga nú.

Alls sögðust ríflega 48 prósent stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hlynnt hernaðaraðgerðunum. Heldur fleiri sjálfstæðismenn sögðust andvígir hernaðinum, alls ríflega 27 prósent samanborið við 21 prósent framsóknarmanna.

Um 38 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar segjast hlynnt hernaðaraðgerðum NATO í Líbíu. Örlítið fleiri, eða um 41 prósent, segjast andvíg aðgerðunum.

Um 28 prósent stuðningsmanna Vinstri grænna styðja hernaðaraðgerðirnar, en meirihluti stuðningsmanna flokksins, ríflega 57 prósent, er andvígur hernaðinum.

Hjá þeim hópi sem ekki tók afstöðu til stjórnmálaflokka voru um 35 prósent hlynnt hernaðinum en 37 prósent andvíg.

Hringt var í 800 manns dagana 5. og 6. apríl. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá og skiptust jafnt eftir kyni, og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.

Spurt var: Hversu hlynnt(ur) eða andvíg(ur) ert þú hernaðaraðgerðum aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins í Líbíu? Alls tóku 79,7 prósent afstöðu. brjann@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×