Innlent

Minnka á magndrykkju

steingrímur j. sigfússon
fjármálaráðherra.
steingrímur j. sigfússon fjármálaráðherra.
Í nýju frumvarpi fjármálaráðherra til breytinga á lögum um Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins er lagt til að stofnunin verði án stjórnar og heyri beint undir fjármálaráðherra.

Meginefni frumvarpsins snýr að lögfestingu samfélagslegrar ábyrgðar ÁTVR. Slík stefna er þegar í gildi en án lagaskyldu.

Segir í greinargerð frumvarpsins að ÁTVR þurfi að fylgjast vel með rannsóknum á sviði áfengismála og miðla þeirri þekkingu til viðskiptavina. Þetta eigi sérstaklega við um tengsl áfengis og heilsu en mikilvægt sé að hvetja viðskiptavini til heilbrigðrar og ábyrgrar áfengisneyslu. Eitt mikilvægasta verkefni ÁTVR á sviði samfélagslegrar ábyrgðar sé að standa vörð um unga fólkið og vernda það gagnvart áfengi og misnotkun þess. Breyta þurfi þeim viðhorfum í þjóðfélaginu að áfengisneysla unglinga sé í lagi.

Þá segir að ÁTVR eigi að einbeita sér að því að bæta vínmenningu í landinu með því að vekja áhuga viðskiptavina á vönduðum vínum, tengja saman vín og mat og reyna þannig að draga úr magndrykkju.

Í frumvarpinu er vikið að stefnu stjórnvalda í áfengismálum og hún sögð til að lágmarka skaðlega neyslu. Sérstaklega sé stefnt að því að vernda börn og unglinga gegn áfengi og markaðssetningu þess. Grunnstoðir áfengisstefnunnar séu að starfrækja einkasölu ríkisins á áfengi, háir áfengisskattar og bann við áfengisauglýsingum og markaðsstarfsemi tengdri áfengi.

- bþs




Fleiri fréttir

Sjá meira


×