Fótbolti

Wilshere: Minn besti dagur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jack Wilshere segir að dagurinn í gær hafi verið sá langbesti hjá sér síðan hann gekk til liðs við Arsenal.

Wilshere átti stórleik þegar að Arsenal vann 2-1 sigur á Barcelona í fyrri leik liðanna í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. Börsungar höfðu 1-0 forystu í hálfleik en þeir Robin van Persie og Andrei Arshavin skoruðu mörk Arsenal í síðari hálfleik.

„Síðustu vikur hafa verið brjálaðar og þetta toppar sennilega allt," sagði Wilshere við enska fjölmiðla eftir leikinn í gær.

„En þetta er ekki búið enn. Við eigum enn síðari leikinn eftir og við verðum að ná góðum úrslitum á útivelli til að komast áfram í fjórðungsúrslitin."

„Það kom 20 mínútna kafli í síðari hálfleik þar sem við náðum einfaldlega ekki boltanum af þeim."

„Það kom okkur ekki á óvart. Við þurftum bara að halda það út, verjast vel og beita skyndisóknum. Það er nákvæmlega það sem við gerðum."

Það var frábær stemning á Emirates-vellinum í gær og hetja Arsenal-liðsins, Andrei Arshavin, segir að hann hafi aldrei upplifað annað eins á vellinum.

„Stemningin hefur aldrei verið betri síðan ég kom hingað. Ég er ánægður með markið sem ég skoraði og það gefur okkur sjálftraust fyrir síðari leikinn. Við verðum að hafa trú á því að við getum nú farið til Barcelona og komist áfram - annars er það til einskis."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×