Innlent

Hækkun vasksins í skoðun

Meðal þeirra leiða sem eru til skoðunar til að auka tekjuöflun ríkisins er að koma á einu virðisaukaskattþrepi. Þingmannanefnd á vegum stjórnarflokkanna hefur skoðað hvaða leiðir séu færar í aukinni tekjuöflun. Hún hefur meðal annars tekið vaskinn til skoðunar. Nefndin hefur fundað undanfarna daga og seinnipartinn í gær var haldinn fundur með formönnum stjórnarflokkanna. Að því loknu var haldinn sameiginlegur þingflokksfundur stjórnarflokkanna.

Fjögurra manna sendinefnd frá AGS var hér á ferð í mars og fundaði með hagsmunaaðilum, verkalýðshreyfingunni og fleirum sem málið varðar. Eftir þá yfirlegu var í umræðunni að samræma virðisaukaskattsprósentuna í 20 prósent, en í dag eru vörur með misháan virðisauka; allt frá 7 prósentum í 25,5. Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins er það ekki talið nægjanlegt nú að samræma skattinn í 20 prósentum. Í dag sé því rætt um 21 til 22 prósenta skatt. Hvort breytingin er hugsuð, verði af henni, öll í einu eða í þrepum er óljóst á þessu stigi málsins. Til dæmis er ólíklegt að matarskattur verði hækkaður í einu vetfangi.

Ýmsir stjórnarþingmenn eru hræddir við að fara þessa leið, enda muni hún koma beint við pyngju landsmanna. Óttast er að lækkun efra þrepsins muni trauðla skila sér til almennings, en hækkun lægra þrepsins verði hins vegar velt út í verðlagið.

Það sjónarmið að ríkið þurfi auknar öruggar tekjur, óháðar aflatölum eða annarri óvissu, er hins vegar sterkt í umræðunum. Því er til skoðunar að hækka vaskinn, sem er neysluskattur, því þar sé á vísan að róa í því að bæta efnahag ríkissjóðs.

Þingmannanefndin mun hafa nokkuð vítt umboð til að gera tillögur um málið, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins, en í henni sitja Oddný G. Harðardóttir, Helgi Hjörvar, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Björn Valur Gíslason, Árni Þór Sigurðsson og Álfheiður Ingadóttir. Fjármálaráðherra leggur fram endanlega tillögu um skattprósentur, en engin ákvörðun hefur verið tekin um málið. - kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×