Lífið

Lady Gaga hannar Polaroid-myndavélagleraugu

Söngkonan Lady Gaga var gerð að listrænum stjórnanda myndavélaframleiðandans Polaroid í fyrra. Síðan þá hefur söngkonan unnið hörðum höndum að því að hanna nýjar vörur fyrir fyrirtækið sem voru loks frumsýndar á CES-tæknisýningunni í vikunni sem leið.

Á meðal þess sem Lady Gaga kynnti fyrir áhorfendum voru stafræn myndavél, þráðlaus myndaprentari ætlaður farsímum og sólgleraugu sem taka myndir og myndbönd.

Sólgleraugun hafa vakið gríðarlega athygli enda eru þau fyrst sinnar tegundar. Hægt er að taka myndir og myndbönd með þeim og aftan á þeim er síðan lítill USB-minnislykill og Bluetooth-sendir. Framan á gleraugunum eru síðan tveir litlir skjáir sem vísa út.

„Þetta er búin að vera löng og þrotlaus vinna á milli mín og Polaroid. Við höfum gert allt sem í okkar valdi stendur til að efla Polaroid-myndavélina og gera hana nútímavænni," sagði söngkonan við þetta tilefni.

Hún sagðist jafnframt hafa haft aðdáendur sína í huga meðan á hönnunarferlinu stóð. „Ég vildi hanna vörur sem aðdáendur mínir myndu elska og myndu henta þeirra lífsstíl."

Í meðfylgjandi myndbandi má sjá kynningu Polaroid og Lady Gaga á nýjungunum á CES-sýningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.