Innlent

Tíu ár í endurreisn hjá millitekjufólki

Kaupmáttur á Íslandi hefur rýrnað mikið frá hruni. Forseti ASÍ segir að áratugur geti liðið þar til kaupmáttur millitekjufólks nái sama stigi og fyrir kreppu. Fréttablaðið/Vilhelm
Kaupmáttur á Íslandi hefur rýrnað mikið frá hruni. Forseti ASÍ segir að áratugur geti liðið þar til kaupmáttur millitekjufólks nái sama stigi og fyrir kreppu. Fréttablaðið/Vilhelm
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), segir að áratugur geti liðið áður en kaupmáttur meðaltekjufólks nái sama stigi og á góðæristímanum fyrir hrun. Eins og fram hefur komið í fréttum blaðsins er aukinn kaupmáttur launafólks eitt helsta atriðið í nýhöfnum kjaraviðræðum ASÍ og Samtaka atvinnulífsins (SA).

Í nýlegri grein á vef SA er mælt með hóflegum launahækkunum og vísað til þess að á árabilinu 2005 til 2009 hafi laun á Íslandi hækkað um 32 prósent á meðan þau hækkuðu um rúm tíu prósent að meðaltali í OECD-löndunum. Laun hafi svo haldið áfram að hækka á síðasta ári.

Forsvarsmenn ASÍ vísa hins vegar til hækkunar á vísitölu neysluverðs og rýrnunar kaupmáttar hjá þorra landsmanna.

Kaupmáttartölur frá ASÍ sýna með glöggum hætti ris og fall efnahagslífsins frá ársbyrjun 2005 og fram til nóvember 2010. Kaupmáttur á Íslandi hefur rýrnað mikið frá góðærinu sem náði hámarki sumarið 2007. Tölurnar hafa verið á uppleið síðustu mánuði, en kaupmáttur hefur enn ekki náð því sem hann var í janúar árið 2005.

Segir Gylfi að samkvæmt skýrslu Alþjóðavinnumálastofnunar hafi launamenn sennilega hvergi í heiminum farið verr út úr hruninu en Íslendingar, hvað varðar kaupmáttarrýrnun. Það megi að mestu leyti skýra með gengishruni.

„Það er því miður þekkt staðreynd að hrun krónunnar hefur þurrkað upp 15 prósent af dagvinnulaunum og því til viðbótar er svo samdráttur í atvinnu þannig að ráðstöfunartekjur heimilanna hafa minnkað um rúman fimmtung.“

Gylfi bætir því við að þótt kaupmáttur hinna launalægstu hafi verið varinn í síðustu kjarasamningum sé langt í land með að millitekjufólk nái sömu hæðum. „Það mun taka okkur áratug að endurreisa stöðu þeirra hvað varðar kaupmátt.“

Gylfi segir efnahagsumhverfið hér á landi þó geta staðið í vegi fyrir raunverulegum kjarabótum fyrir almenning. „Það er engin launung að það efnahagsumhverfi og gjaldmiðill sem byggt verður á þarf að vera eitthvað traustara en það sem tíðkast hefur hingað til svo að tryggt verði að það sem vinnist hverfi ekki aftur tíu árum seinna.“

thorgils@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×