Enski boltinn

Corinthians með 35 milljóna punda boð í Tevez

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Tevez var settur á bekkinn fyrir viðureign Argentínu og Kostaríka í Cope America
Tevez var settur á bekkinn fyrir viðureign Argentínu og Kostaríka í Cope America Nordic Photos/AFP
Brasilíska knattspyrnufélagið Corinthians hefur boðið 35 milljónir punda eða sem svarar 6.6 milljörðum íslenskra króna í Carlos Tevez leikmann Man City. Kia Joorabchian ráðgjafi Tevez segist þegar hafa rætt við brasilíska félagið.

Tevez hefur óskað eftir því að vera seldur frá bikarmeistaraliði Manchester City á Englandi en hann á þrjú ár eftir af samningi sínum. Aðeins lið í Suður-Ameríku koma til greina að því virðist þar sem leikmaðurinn vill komast nær fjölskyldu sinni sem býr á þeim slóðum.

Tevez hefur verið orðaður við brotthvarf til Ítalíu og Spánar að undanförnu en Corinthians er fyrsta félagið sem gerir formlegt tilboð í kappann. Tevez er ekki ókunnugur félaginu en hann lék með þeim á árunum 2004-2006. Manchester City hefur sett 50 milljóna punda verðmiða á fyrirliða sinn og því alls ekki víst að félagið taki boðinu.

„Viðræður eru hafnar," segir Joorabchian. „Corinthians hefur verið í sambandi við okkur. Draumur okkar er að Tevez geti snúið tilbaka til Corinthians. Hann segist eiga óklárað verk þar og segist eiga sér þann draum að vinna Copa Libertadores (Suður-Ameríkukeppni félagsliða)."

Félagaskipti Tevez þurfa að ganga hratt fyrir sig ef af þeim á að verða. Félagaskiptaglugginn í Brasilíu lokar þann 20. júlí og yfirmaður knattspyrnumála hjá Corinthians, Duilio Monteiro Alves, segir að félagið muni gera hvað það geti.

„Ég vil ekki gefa stuðningsmönnum okkar falskar vonir," sagði Alves. „Við munum reyna, það er allt sem ég get sagt. Þetta er ekki ómögulegt. Þetta er draumur sem við erum að reyna að láta verða að veruleika," sagði Alves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×