Innlent

Bárust tæplega 1500 tilkynningar um svindlpósta

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglunni bárust á síðasta ári 1479 tilkynningar um svindlpósta sem almenningi hafði borist frá óprúttnum aðilum. Þetta kemur fram í gögnum frá Peningaþvættisdeild Ríkislögreglustjóra. Ógerningur er fyrir lögregluna að rannsaka ítarlega hvert mál fyrir sig en Guðmundur Guðjónsson, yfirlögregluþjónn hjá Ríkislögreglustjóra segir þó að farið sé yfir alla póstana sem berast.

Lögreglan flokkar póstana eftir eðli þeirra. Algengastir eru tilkynningar um tölvupósta um fjármuni í bönkum, arf eftir ættingja og því um líkt. Slíkir póstar voru 662. Þar á eftir koma tilkynningar um lottó- og happadrættisvinninga. Embættinu bárust tilkynningar um 501 slíkan póst í fyrra. Fæstar voru tilkynningarnar um tölvupósta með hótunum til að ná fjármunum, Slíkar tilkynningar voru sjö.

Fjöldi tilkynninga eftir flokkum.
Ríkislögreglustjóri sendir reglulega frá sér tilkynningar þar sem fólk er hvatt til þess að vera á varðbergi gagnvart svindlpóstum sem þessum. Guðmundur Guðjónsson hvetur fólk til að hafa þessar viðvaranir í huga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×