Innlent

Safna húsbúnaði fyrir fórnarlömb mansals og vændis

Erla Hlynsdóttir skrifar
Fórnarlömb mansals og vændis geta fengið stuðning í athvarfinu
Fórnarlömb mansals og vændis geta fengið stuðning í athvarfinu Mynd úr safni AFP
Vel gengur að safna húsmunum í nýtt athvarf Stígamóta fyrir fórnarlömb mansals og vændis sem stefnt er að því að opna þann 1. september.  Stígamót óskuðu á dögunum eftir húsgögnum og búnaði sem öðlast gæti framhaldsslíf í athvarfinu og hafði fjöldi fólks samband í framhaldinu.   

„Ég hef varla undan því að svara fólki sem vill gefa okkur," segir Steinunn Gyðu- og Guðjónsdóttir, verkefnastýra athvarfsins.  „Ég er búin að fá örugglega fjörutíu tölvupósta og fjölda símtala frá fólki sem er aflögufært," segir hún og er að vonum ánægð með viðbrögðin.  Meðal þess sem vantaði í hið nýja athvarf voru rúm, sængur, útvarpstæki, mottur og bækur.

Stígamót fá húsnæðið afhent nú um mánaðarmótin. Allan næsta mánuð verður unnið að því að mála og koma húsnæðinu í samt lag, og þá verður tekið við fyrstu skjólstæðingunum þann 1. september.

„Full þörf á þessu"

Lengi hafa staðið vonir til að Stígamót gæti opnað athvarf fyrir fórnarlömb mansals og vændis, og er nú loks komið að því. „Það er full þörf á þessu. Hér á landi er ekkert búsetuúrræði fyrir konur sem seldar eru mansali inn í kynlífsiðnaðinn. Konur sem eru í vændi, bæði íslenskar og erlendar, geta nýtt sér þetta úrræði til að segja skilið við þennan heim," segir Steinunn.

Verjast glæpamönnum

Spurð hvort ekki þurfi sérstaka öryggisgæslu við athvarf sem þetta segir Steinunn að Stígamót vinni með lögreglunni að því að tryggja öryggið. Hún vísar hins vegar til þess að í sambærilegum athvörfum á Norðurlöndunum hafi það ekki verið stórt vandamál að menn ráðist að þeim í því skyni að sækja konurnar. „Það virðist vera að þessir ósvífnu glæpamenn sleppi hendinni af konunum þegar þær eru komnar í öruggt skjól," segir hún.

Þeim sem eru aflögufærir og vilja gefa til athvarfsins er bent á að hafa samband við Stígamót, hvort sem er í gegn um síma 562-6868 eða senda póst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×