Innlent

Tugir sýndu strokuþrælnum stuðning

Mótmælin voru friðsamleg
Mótmælin voru friðsamleg Mynd SB
Nokkrir tugir manns söfnuðust saman í friðsamlegum mótmælum við stjórnarráði í hádeginu þar sem þess var krafist að máritaníski strokuþrælllinn Mouhammade Lo verði leyft að dvelja á Íslandi á meðan mál hans er tekið fyrir í innanríkisráðuneytinu.

Forsvarsmenn samtakanna No Borders, sem berjast fyrir réttindum flóttamanna, eru afar ósáttir við þá ákvörðun ráðuneytis Ögmundar Jónassonar að strokuþrælnum skuli vísað aftur til Noregs. Þar hafði Mouhammade sótt um hæli en ekki fengið svar þegar hann flúði til Íslands. Talsmenn No Borders segja að Mouhammade verði sendur í þrældóm til heimalandsins fái hann ekki hæli í Noregi. Þá gagnrýna þeir „aðför lögreglunnar gegn lögvörðum mannréttindum hans," eins og það er orðað á vef samtakanna.   

Mouhammade er 22 ára gamall en hann flúði hingað til lands frá Noregi þar sem hann hafði sótt um hæli en ekki fengið svar. Útlendingastofnun sem og íslenska innanríkisráðuneytið tóku á dögunum þá ákvörðun að vísa mannnium úr landi og aftur til Noregs. Í tilkynningu sem No Borders sendu þá frá sér kom fram að ef maðurinn fengi ekki hæli í Noregi yrði hann sendur í þrældóm í heimalandi sínu. Er þess því krafist að hann fái hæli hér.  Eftir að ákveðið var að vísa Mohammade úr landi flúði hann af Fit hostel þar sem hann dvaldi og hefur síðan farið huldu höfði.   

Búið er að kæra ákvörðun Útlendingastofnunar og ráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×